Fíkn er fjölskyldumál eða FEF er þríþætt úrræði fyrir aðstandendur fólks með fíknivanda. Fyrirmynd úrræðisins er The family matters model sem Bandaríski sálfræðingurinn Melony Bacon setti á laggirnar 2015 en úrræðið hefur verið aðlagað að íslensku samfélagi. Aðstandendur geta valið um þrjár leiðir til að nýta sér úrræðið, eftir því hvernig stuðningi þeir eru að leita eftir. Leiðirnar sem í boði eru FEF grunnur, FEF meðferð og FEF plús, sjá nánar um þjónustueiðir hér.

The family matters model

Klíníski sálfræðingurinn Melody Bacon, ásamt eiginmanni sínum Ronald Bacon, þróaði meðferð byggða á rannsóknum sem notuðu fjölskyldumeðferð í vinnu með fjölskyldum fólks með fíknivanda. Upphaflega var sett á laggirnar 6 vikna prufuverkefni í vinnu með aðstandendum fólks með fíknivanda. Í kjölfar þessa verkefnis var Family matters módelið þróað út frá kenningum Bowen og 12 spora kerfi AA-samtakanna og hefur verið starfrækt frá árinu 2016. Meginmarkmið Family matters módelsins er að aðstoða þátttakendur við að verða meðvitaðari um það sem skiptir þá máli í lífinu, þeirra eigin djúpstæðu gildi og hvernig þau vilja bregðast við sjálfu sér, fjölskyldu sinni og ástvinum með þau gildi í huga. Módelið var búið til með því markmiði að styðja við og leiðbeina aðstandendum í því breytingaferli.

Fjölskyldukerfakenning Bowen

Murray Bowen þróaði líkan um kerfisbundna nálgun í sálmeðferð í starfi sínu sem geðlæknir. Í vinnu sinni með sjúklingum með geðklofa tók Bowen eftir bakslagi við heimför sjúklinga til fjölskyldna sinna. Vegna þessa þótti honum ástæða til að prófa að taka mið af fjölskyldukerfinu í heild sinni í meðferðarstarfinu. Þessi kerfisbundna nálgun sem er frábrugðin línulegri sálfræðimeðferð, lítur á fjölskylduna sem flókna einingu þar sem breytingar á einum hafa áhrif á heildina. Fjölskyldukerfiskenning Bowen gengur út frá því að einstaklingar verði fyrir miklum áhrifum frá upprunafjölskyldu og skoðar margar kynslóðir innan fjölskyldna til að bera kennsl á endurtekin mynstur og samskipti innan fjölskyldunnar (Bacon, 2019). Í fjölskyldukerfiskenningu Bowen eru nokkur lykilhugtök sem styðja við skilning og skilgreiningu á gæðum samskipta. Þar á meðal og í fyrirrúmi er hugtakið um aðgreiningu sjálfsins (e. differentiation of self) en Bowen taldi einstaklinga hafa mismikla hæfni til aðgreiningar en aðgreining er færni til viðhalda aðskildri sjálfsvitund en vera á sama tíma tilfinningalega tengdur öðrum. Há aðgreining gerir einstaklingum kleift að halda ró sinni og skynsemi andspænis tilfinningalegu álagi, á meðan lág aðgreining getur leitt til sterkra tilfinningalegra viðbragða og tilhneigingu til þess að týnast í tengslum við aðra.

Tengsl áfalla og fíknivanda

Árið 1962 kom fram í dómi frá Hæstarétti Bandaríkjana að áfengisvandi væri sjúkdómur og á næstu árum og áratugum styrktist þessi hugmyndafræði í sessi. Sjúkdómslíkanið á áfengisvanda hefur haft mikil áhrif á meðferð við áfengis og vímuefnavanda en hefur ekki verið laust við gagnrýni. Undanfarin ár hafa komið fram hugmyndir sem stangast á við sjúkdómslíkanið að einhverju leiti. Bent hefur verið á að sálfélagslegir þættir í æsku og snemma á lífsleiðinni geti haft áhrif á tilurð og þróun vandans, jafnvel orsakað hann. Með þessu er ekki endilega verið að útiloka sjúkdómslíkanið eða að líffræðilegir þættir geti spilað inn í, heldur benda á að reynsla og umhverfisþættir hljóti að hafa áhrif á tilurð vandans. Gabor Maté (2010) kemur innihaldinu í þessari áherslubreytingu ágætlega frá sér í bók sinni In the Realm of Hungry Ghosts: Close Encounters with Addiction þar sem hann segir: Ekki  spyrja hvers vegna einstaklingurinn notar vímuefni heldur skaltu spyrja hvers vegna hann upplifir sársaukan sem hann er að reyna að deyfa. Í þessu felst áherslubreyting í sýn á vandan, að fíknivandi sé afleiddur vandi og að til þess að hægt sé að vinna með hann þurfi að vinna með sársaukan sem bjó til þörfina fyrir fíknina (Maté, 2010). Þegar FEF var stofnað var talið mikilvægt að bæta þessari nálgun inn í efnið, en þessi nálgun var ekki til staðar í fyrirmyndinni : The family matters model.